Landsvirkjun er stærsta orkufyrirtæki landsins og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi – að hámarka afrakstur þeirra orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
Stofnun Landsvirkjunar 1. júlí 1965 var metnaðarfullt verkefni og engum getur dulist að frumkvöðlarnir hafa verið stórhuga og vandað til verka. Fyrirtækið hefur verið hreyfiafl framfara og verðmætasköpunar í landinu í um hálfa öld og náð verulegum árangri til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Um leið hafa starfseminni fylgt áskoranir sem hefur þurft að mæta á hverjum tíma með framsækni og sátt að leiðarljósi.
Í upphafi var tekin meðvituð ákvörðun um að styðja við stóriðju á Íslandi. Það var mikið framfaraspor fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag í heild. Fyrirtæki í orkufrekum iðnaði eru burðarás í viðskiptamannahópi Landsvirkjunar. Lögð er áhersla á að hlúa að þessum þætti starfsemi Landsvirkjunar og gera viðskiptavinum kleift að vaxa og dafna. Miklir hagsmunir eru í því fólgnir að vel takist til á þeim vettvangi.
Markmið þeirra sem stýrt hafa Landsvirkjun hverju sinni hefur ávallt verið að ná sem bestum árangri í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Markmiðið er hið sama nú. Verðmæti orkulindanna er mikið og fer vaxandi. Möguleikar til að ná auknum árangri fyrir íslenskt samfélag eru verulegir en þeim fylgja áfram áskoranir.
Eftirspurn eftir íslenskri raforku er orðin meiri en framboð og ólíkar iðngreinar sýna Íslandi aukinn áhuga. Ný viðskiptatækifæri gera Landsvirkjun kleift að breikka hóp viðskiptavina í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og arðsemi fyrir eigandann ásamt því að draga úr rekstraráhættu. Á sama tíma eru vísbendingar um að raforkusala á erlenda markaði um sæstreng kunni að vera arðbær fyrir Ísland, auka orkuöryggi í landinu og bæta ábyrga nýtingu orkuauðlindanna. Landsvirkjun hefur lagt til að skoðað verði hvort þar séu fyrir hendi tækifæri sem vilji er til að nýta.
Landsvirkjun mun nú sem fyrr kappkosta að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála, leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, styðja við rannsóknir á lífríki og lágmarka umhverfisáhrif í starfsemi fyrirtækisins.
Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að vera framsækið raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið starfar í alþjóðlegu umhverfi og ber sig saman við þau bestu sem vinna og selja orku. Mikilvægt er fyrir þjóðarhag að Íslendingum lánist að nýta auðlindir landsins af skynsemi.
Með aukinni fjármunamyndun og lægri skuldsetningu munu tækifæri til arðgreiðslna aukast verulega
Hörður Arnarson, forstjóri