Eignir
Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.270 m. USD í árslok 2014. Handbært fé í árslok 2014 var 207 m. USD. Fyrirtækið hefur aðgang að samningsbundnum veltilánum og er óádreginn hluti þeirra 200 m. USD. Lausafé og óádregin lán voru því alls 407 m. USD.
Skuldir og eigið fé
Vaxtaberandi skuldir námu 2.398 m. USD í árslok 2014 og hafa lækkað um 320 m. USD frá árslokum 2013 þegar þær námu 2.717 m. USD. Að teknu tilliti til handbærs fjár þá námu nettó skuldir Landsvirkjunar 2.190 m. USD í árslok en voru 2.429 m. USD í árslok 2013 og hafa lækkað um 239 m. USD. Veginn meðallíftími lánasafnsins var um 5,4 ár.
Nettó skuldir voru 2.190 m. USD í lok árs 2014 og lækka um 239 m. USD frá árslokum 2013. Handbært fé frá rekstri að teknu tilliti til fjárfestinga var jákvætt um 146 m. USD en sú staðreynd að það var jákvætt er meginástæða fyrir lækkun nettó skulda. Auk þess hefur reiknaður gengishagnaður vegna lána í annarri mynt en Bandaríkjadal áhrif.
Eigið fé fyrirtækisins hækkaði á árinu og var 1.705 m. USD í lok árs. Eiginfjárhlutfallið hækkaði einnig en það var 39,9% í árslok 2014 en 36,3% í lok árs 2013.
Kennitölur
Landsvirkjun er ennþá tiltölulega skuldsett fyrirtæki en hefur á síðustu árum unnið markvisst að lækkun skulda og bætingu mælikvarða sem hafa áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins.
Skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó skuldir/EBITDA) lækkar úr 7,4x í árslok 2013 í 6,6x í árslok 2014. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum fer úr 10,6% í árslok 2013 í 11,8% í árslok 2014.
Vaxtaþekjan (EBITDA/nettó vaxtagjöld) hækkar í 3,8x en var 3,5x í árslok 2013. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum hækkar úr 2,7x í lok árs 2013 í 2,8x í árslok 2014.
Arðsemi eiginfjár reiknast frá hagnaði og því geta innbyggðar afleiður og óinnleystur gjaldeyrismunur haft mikil áhrif á niðurstöðuna. Arðsemi eiginfjár var neikvæð um 2,3% fyrir árið 2013 en jákvæð um 4,7% árið 2014.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2014 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali. Einnig er hægt að sækja ársskýrsluna í Acrobat (pdf) skjali.