Stýring fjárhagsáhættu
Fjárstýring hefur eftirlit með greiningu og stýringu á fjárhagslegri áhættu Landsvirkjunar í þeim tilgangi að draga úr sveiflum í rekstri. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að draga úr áhættu fyrirtækisins. Fjárhagsleg áhætta Landsvirkjunar greinist í markaðsáhættu, lausafjáráhættu og mótaðilaáhættu. Markaðsáhætta fyrirtækisins er einkum þrenns konar; álverðsáhætta, vaxtaáhætta og gjaldmiðlaáhætta.
Markaðsáhætta
Álverðsáhætta
Áhætta fyrirtækisins vegna breytinga á álverði er talsverð þar sem um 30% tekna Landsvirkjunar eru bundin álverði. Landsvirkjun hefur því gert afleiðusamninga til að treysta tekjugrundvöll sinn og draga úr sveiflum. Settar hafa verið inn varnir fyrir um 50% af áætluðu sjóðstreymi ársins 2015 og um 20% fyrir árið 2016.
Verulega hefur dregið úr áhættu vegna álverðstengingar en frá árinu 2009 hefur hlutfall tekna fyrirtækisins með tengingu við álverð lækkað úr 51% í 31%.
Vaxtaáhætta
Landsvirkjun býr við vaxtaáhættu vegna vaxtaberandi eigna og skulda. Skuldir fyrirtækisins bera bæði fasta og breytilega vexti og eru vaxtaafleiður nýttar til stýringar á vaxtaáhættu. Vaxtaberandi fjárskuldir eru mun hærri en vaxtaberandi fjáreignir og er áhætta félagsins því falin í mögulegri hækkun vaxta og auknum fjármagnskostnaði. Í árslok 2014 var hlutfall skulda með breytilega vexti um 57% samanborið við 59% í árslok 2013.
Á undanförnum árum hefur verið dregið verulega úr áhættu af hækkun vaxta en hlutfall fastra vaxta hefur hækkað úr 16% í 43% á árunum 2009 til 2014.
Gjaldmiðlaáhætta
Gjaldmiðlaáhætta er sú áhætta að fé tapist vegna óhagstæðra breytinga á gengi gjaldmiðla. Gjaldmiðlaáhætta Landsvirkjunar hlýst af greiðsluflæði, eignum og skuldum sem og af öllum almennum viðskiptum í öðrum myntum en starfrækslumynt. Starfrækslumynt fyrirtækisins er Bandaríkjadalur og myndast því gjaldmiðlaáhætta af sjóðstreymi og opinni stöðu efnahagsreiknings í öðrum myntum en Bandaríkjadal.
Það er stefna Landsvirkjunar að draga úr gjaldmiðlaáhættu með því að auka vægi Bandaríkjadals í lánasafni félagsins. Unnið hefur verið markvisst að þessu og undanfarin tvö ár hefur Landsvirkjun gert samninga um skilmálabreytingar lána úr evrum yfir í Bandaríkjadal að fjárhæð 190 milljónir evra. Frá árinu 2009 hefur hlutfall Bandaríkjadals í lánasafni hækkað úr 30% í 59%.
Tekjur félagsins eru að mestum hluta í Bandaríkjadal. Aðrar tekjur eru í íslenskum og norskum krónum en gjaldmiðlaáhætta vegna þessara mynta er takmörkuð þar sem nettun er í sjóðstreymi íslenskra króna og tekjur í norskum krónum eru hlutfallslega litlar. Greiðsluáhætta vegna afborgana og vaxta í evrum næstu árin hefur verið takmörkuð með afleiðusamningum.
Lausafjáráhætta
Lausafjáráhætta felur í sér hættu á tapi ef fyrirtækið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar á gjalddaga. Félagið lágmarkar lausafjáráhættu með virkri stýringu lausafjár sem felur í sér að nægt laust fé er til staðar á hverjum tíma til að standa undir skuldbindingum félagsins. Til að tryggja sem best jafnvægi á milli skuldbindinga og væntra tekna er lögð áhersla á rúma lausafjárstöðu fyrirtækisins í formi handbærs fjár og aðgengis að samningsbundnum veltilánum. Í árslok 2014 hafði fyrirtækið aðgang að óádregnum veltilánum að fjárhæð 200 milljónir USD en veltilán fyrirtækisins í ISK var að fullu dregið að fjárhæð ISK 10.500 milljónir.
Til að tryggja aðgengi að fjármagni og til að viðhalda sveigjanleika í fjármögnun hefur Landsvirkjun nýtt mismunandi tegundir lána. Undanfarin ár hefur fjármögnun þó að mestu farið fram í gegnum ríkistryggðan EMTN (e. Euro Medium Term Note) rammasamning fyrirtækisins.
- Í árslok 2014 var staða lána undir EMTN-samningnum með ríkisábyrgð um 1,6 milljarðar USD en var 1,8 milljarðar USD árið 2013. Heildarfjárhæð getur að hámarki numið 2,5 milljörðum USD.
- Í árslok 2014 var staða lána undir EMTN-samningnum án ríkisábyrgðar um 30 milljónir USD en var 30 milljónir USD árið 2013. Heildarfjárhæð getur að hámarki numið 1,0 milljarði USD.
Dregið er úr endurfjármögnunaráhættu Landsvirkjunar með jafnri dreifingu afborgana og vaxta og með löngum líftíma útistandandi lána. Veginn meðallíftími skulda er 5,4 ár og hlutfall lána á gjalddaga innan 12 mánaða er 11,4%.
Handbært fé félagsins var í árslok um 207 milljónir USD en var 288 milljónir USD árið 2013. Ef tekið er tillit til óádregins veltiláns þá hefur fyrirtækið aðgang að alls um 407 milljónum USD. Sjóðstreymi frá rekstri og vel dreifðar endurgreiðslur lána ásamt góðri lausafjárstöðu og aðgengi að lánalínum tryggir greiðsluhæfi fyrirtækisins að lágmarki út árið 2016.
Mótaðilaáhætta
Mótaðilaáhætta felur í sér hættu á að gagnaðili samnings uppfylli ekki ákvæði hans. Mótaðilaáhætta Landsvirkjunar verður fyrst og fremst til vegna raforkusamninga til iðnaðar og afleiðusamninga fyrirtækisins sem eru gerðir í áhættuvarnarskyni. Þrátt fyrir að um verulegar fjárhæðir geti verið að ræða er áhættan takmörkuð með kröfum fyrirtækisins um gæði mótaðila.
Landsvirkjun hefur sett sér sem viðmið varðandi afleiðuviðskipti að ekki eru gerðir samningar við fjármálastofnanir sem hafa lægri lánshæfiseinkunn en A- frá Standard og Poor’s eða sambærilega lánshæfiseinkunn frá öðrum viðurkenndum matsfyrirtækjum. Áður en gerðir eru samningar um sölu á raforku er farið ítarlega yfir fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækja og móðurfélaga þeirra ef við á.
Fylgiskjöl
Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2014 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali. Einnig er hægt að sækja ársskýrsluna í Acrobat (pdf) skjali.