Section
Segment

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði eykst um 20%

Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á árinu 2014 þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi, einkum vegna lágs álverðs og takmörkunar á afhendingu raforku vegna slakrar vatnsstöðu. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var um 147 m. USD, hækkaði um 20% frá fyrra ári og hefur ekki verið meiri áður. Nettó skuldir halda áfram að lækka, voru 2.190 m. USD í lok árs 2014 og lækka um 239 m. USD á milli ára.

Rekstraryfirlit 2014

Rekstrartekjur samstæðunnar hækkuðu um 15 m. USD frá árinu áður, eða úr 423 m. USD í 438 m. USD þrátt fyrir lágt álverð og takmörkun á afhendingu raforku vegna slakrar vatnsstöðu. Álverð hefur áhrif á um 31% af tekjum fyrirtækisins, en unnið hefur verið að því að draga úr álverðstengingu í tekjum félagsins. Frá árinu 2009 hefur hlutfall tekna með tengingu við álverð lækkað úr 51% í 31%.

Meðal annarra tekna eru tekjufærðar 17 milljónir USD vegna samkomulags Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan á Íslandi. Meðalheildsöluverð til almenningsrafveitna (án flutningskostnaðar) var 4,3 kr./kWst á árinu samanborið við 4,0 kr./kWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar var 25,9 USD/MWst en var 25,8 USD/MWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði þar sem það er bundið í samninga. Flutningstekjur hækka á milli ára úr 57 m. USD í 59 m. USD. Áhættuvarnir verja rekstur félagsins að hluta gegn sveiflum í álverði og námu tekjufærðar innleystar áhættuvarnir um 10 m. USD árið 2014 samanborið við 15 m. USD árið 2013.

Segment
Segment

Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 106 m. USD á árinu 2014 en var 94 m. USD árið áður. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 332 m. USD og hækkaði frá fyrra ári. EBITDA hlutfallið er 75,8% en var 77,8% árið 2013. Að teknu tilliti til afskrifta nam rekstrarhagnaður, EBIT 218 m. USD en var 211 m. USD árið áður.

Segment
Section
Segment

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar metinn er grunnrekstur fyrirtækisins. Afkoma grunnrekstrar hefur farið hækkandi síðustu ár og var 2014 besta afkomuár í sögu fyrirtækisins. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 147 m. USD árið 2014 en var 122 m. USD árið áður.

Innleystur gjaldeyrismunur var jákvæður um 19 m. USD árið 2014 (jákvæður um 7 m. USD árið áður) og skýrir að hluta betri afkomu grunnrekstrar. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,5% að teknu tilliti til ríkisábyrgðargjalds, sem er nánast óbreytt frá árinu áður. Lágt vaxtastig á heimsmarkaði og lækkun skulda síðustu ára hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.

Hluti af orkusölusamningum móðurfélagsins eru tengdir þróun álverðs. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar krefjast þess að sú tenging sé reiknuð upp sem innbyggð afleiða. Reiknuð breyting á verðmæti þessarar innbyggðu afleiðu færist í rekstrarreikning og er 88 m. USD til gjalda á árinu 2014 en var 175 m. USD til gjalda árið áður. Gjaldeyrismunur og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleystar sem verður að hafa í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Óinnleystir fjármagnsliðir eru því sérgreindir í framsetningu stjórnenda.

Afkoma ársins eftir skatta er eins og áður segir háð breytingum á óinnleystum fjármagnsliðum sem Landsvirkjun hefur takmörkuð áhrif á. Hagnaður ársins var 78 m. USD en tap 39 m. USD árið áður.

Segment

Horfur í rekstri

Áhugaverðar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi raforkufyrirtækja á Íslandi á undanförnum árum. Fjölbreytt eftirspurn er orðin eftir raforku á Íslandi. Iðngreinar eins og kísilmálmvinnslur og gagnaver sem lengi hefur verið áhugi á að fá til landsins undirbúa nú aukinn rekstur á Íslandi. Eftirspurn eftir raforku er nú orðin meiri en framboð sem skapar bæði tækifæri og áskoranir.

Afkoma Landsvirkjunar mun áfram ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla. Tekjur Landsvirkjunar eru að hluta til tengdar verði á áli og breytingar á álverði á heimsmörkuðum hafa því áfram áhrif á framtíðartekjur Landsvirkjunar. Álverð er um þessar mundir lágt og óvissa um þróun þess á næstu misserum.

Meirihluti lána fyrirtækisins ber breytilega vexti og því er áframhaldandi lágt vaxtastig mikilvægt rekstrinum.

Section
Segment

Fylgiskjöl

Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2014 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali. Einnig er hægt að sækja ársskýrsluna í Acrobat (pdf) skjali.