Landsvirkjun hefur lengi haft til skoðunar tengingu íslenska raforkukerfisins við það evrópska um sæstreng. Vísbendingar eru um að raforkusala um sæstreng kunni að vera samkeppnishæf við erlenda raforkuvinnslu. Er það bæði komið til vegna breytts landslag á orkumörkuðum en einnig vegna tæknilegra framfara í lagningu sæstrengja. Slíkir strengir verða sífellt lengri og öflugri og eru í auknum mæli lagðir um dýpri og erfiðari hafsvæði.
Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif
Árið 2014 var verkefnið um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands eitt þeirra verkefna sem komst inn á tíu ára áætlun, Ten Year Network Development Plan hjá ENTSO-E, samtökum raforkuflutningsfyrirtækja í Evrópu. Einnig var verkefnið valið eitt af 100 áhugaverðustu innviðaverkefnum í heiminum af alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu KPMG.
Athuganir gefa til kynna að raforkuviðskipti um sæstreng séu arðbær íslenskum raforkuvinnsluaðilum og á sama tíma hagkvæm raforkukaupendum í Evrópu. Arðsemin er þó háð ýmsum óvissuþáttum, sérstaklega þeim tvíhliða samningum um verð og ábyrgð sem kynnu að takast milli Íslendinga og breskra viðsemjenda. Landsvirkjun hefur undanfarið unnið að því dýpka skilning fyrirtækisins á arðsemi verkefnisins, samfélagslegum áhrifum og undirliggjandi áhættuþáttum.
Mörg ríki Evrópu hafa miklar áhyggjur af orkuöryggi og eru tilbúin að gera langtímasamninga á háu verði til þess að tryggja sér raforku á komandi árum. Nú þegar tryggja bresk yfirvöld hátt verð fyrir endurnýjanlega raforkuframleiðslu næstu 15 til 35 árin. Í mörgum nágrannaríkjum Íslands er raforkuverð mun hærra en íslensk orkufyrirtæki hafa samið um við innlenda kaupendur sína.
Sæstrengur gæfi Íslendingum tækifæri til að nýta orkulindir landsins betur og auka þar með afraksturinn af þeim fyrir þjóðarbúið.
Sökum umfangs verkefnisins er breið samstaða á Íslandi nauðsynleg ef verkefnið á að fá brautargengi. Frekar þarf að rannsaka þjóðhagsleg og umhverfisleg áhrif framkvæmdarinnar og tryggja að opinská umræða eigi sér stað á Íslandi um niðurstöðurnar.

Landsvirkjun vinnur í samstarfi við innlenda og erlenda fagaðila að því að meta tæknilegan fýsileika og hagkvæmni sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Verkefnið er á byrjunarstigum, þar sem allir þættir verksins eru kannaðir á ítarlegan og faglegan hátt.
Áframhaldandi skoðun á lagningu sæstrengs
Í byrjun árs 2014 skilaði atvinnuveganefnd Alþingis nefndaráliti þar sem lögð er til áframhaldandi skoðun á lagningu raforkustrengs til Evrópu. Í lok árs skipaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þriggja manna verkefnisstjórn til að stýra vinnu við áframhaldandi skoðun á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Verkefnisstjórnina skipa Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þórður Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Landsnets, og Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem er jafnframt formaður verkefnastjórnarinnar.
Landsvirkjun nýtur liðsinnis reyndra alþjóðlegra fagaðila við að meta tæknileg úrlausnarefni við lagningu og rekstur sæstrengs og hagkvæmni verkefnisins.
Sapei-strengurinn sem liggur á milli Ítalíu og Sardiníu liggur mest á 1.640 metrum undir sjávarmáli. Nýr strengur, EuroAsia, milli Grikklands, Kýpur og Ísrael mun fara á rúmlega 2.000 m dýpi.
Árið 2014 hélt Landsvirkjun áfram rannsóknum á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Landsvirkjun tók meðal annars þátt í verkefnahóp ásamt Landsneti og National Grid Interconnector Holdings. Hlutverk hópsins var að skilgreina og fylgja eftir frekari athugunum á tæknilegum og viðskiptalegum forsendum á lagningu sæstrengs.
Forathugun á sæstrengsleið
Á síðasta ári létu Landsvirkjun, Landsnet og National Grid Interconnector Holdings gera forathugun á hafsvæðinu milli Íslands og Bretlands. Markmið athugunarinnar er að benda á æskileg belti fyrir sæstreng milli hugsanlegra landtökustaða á Íslandi og á Bretlandi. Beltin þurfa að vera tæknilega örugg, hagkvæm og þess eðlis að lagning sæstrengs valdi sem minnstri truflun á umhverfi, lífríki og starfsemi á svæðinu.
Hafsvæðið sem könnunin náði yfir. Markmiðið er að kanna æskileg belti fyrir sæstreng milli hugsanlegra landtökustaða á Íslandi og á Bretlandi.
Hafsvæðið sem könnunin náði yfir. Markmiðið er að kanna æskileg belti fyrir sæstreng milli hugsanlegra landtökustaða á Íslandi og á Bretlandi.
Áður en farið verður í kostnaðarsamar botnrannsóknir til að velja leið fyrir strenginn þarf að velja lendingarstað bæði á Íslandi og á Bretlandi. Einnig þarf að meta og bera saman kostnað við mismunandi belti, greina betur áhættu, meta umhverfisáhrif og ræða við hagsmunaaðila.
Í árslok 2014 var vinna við að bera saman heildarkostnað á 6 hugsanlegum landtökustöðum í Bretlandi á lokastigi. Heildarkostnaður tekur til sæstrengs, umbreytistöðva og styrkingar á flutningskerfinu í Bretlandi. Unnið er að sambærilegri athugun fyrir landtökustaði á Íslandi frá Landeyjasandi austur til Seyðisfjarðar.
Ströngustu gæðakröfur
Sæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði um eða yfir 1.000 km langur og líklega myndi hann fara niður fyrir 1.000 metra dýpi á stuttum kafla. Til að flytja rafmagn um jafn langan sæstreng þyrfti að nota jafnstraum á hárri spennu. Með þekktri tækni má auðveldlega flytja um 1.000 MW um strenginn sem stundum er miðað við í verkefninu.
NorNed-strengurinn milli Noregs og Hollands er sá lengsti í heiminum sem er í rekstri. NSN Link strengurinn milli Noregs og Bretlands sem taka á í notkun 2020 verður rúmir 700 km.
Ef farið verður í lagningu sæstrengs þarf að velja streng sem stenst ströngustu gæðakröfur. Strengurinn þarf að standa af sér togálag við lagningu niður á mikið dýpi, þrýsting á sjávarbotni og loks þarf að vera unnt að taka strenginn upp ef á þarf að halda. Síðustu áratugi hefur tækni við lagningu slíkra strengja fleygt fram, m.a. í tengslum við olíu- og gasvinnslu á sjávarbotni og nýtingu vindorku á sjó ásamt því að nýjar leiðir hafa verið farnar við að grafa strengina og verja fyrir álagi.
Áhætta er fólgin í framleiðslu, flutningi og lagningu strengsins og því er markmið verkefnishópsins m.a. að leita leiða til að draga úr hættu á bilunum. Til að koma í veg fyrir skemmdir á strengnum er einnig gert ráð fyrir að grafa hann niður í sjávarbotninn á þeim svæðum þar sem skip kasta akkerum eða eru við fiskveiðar.
Þversnið af mögulegum sæstreng til Bretlands
Strengur
Þó strengurinn sé einungis 12 til15 sentimetrar að þvermáli er hann flókinn að gerð. Hann er samsettur úr minnst níu lögum af sérstökum efnum og vegur 40 til 70 kíló á meter.
Sæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði að lágmarki 1.000 km langur og myndi líklega fara niður fyrir 1.000 metra dýpi.
Við lagningu sæstrengs þarf að huga að umhverfi og lífríki. Landsvirkjun kannar allar leiðir til að lágmarka umhverfisáhrif raforkuflutningsins. Til að mynda þarf að lágmarka rafsegulsvið umhverfis strenginn til að lágmarka áhrif á lífríki og koma í veg fyrir tæringarhættu á málmum. Því þyrfti að leggja tvo samhliða einleiðara (tvípól) til að mynda þá rafmagnshringrás sem er nauðsynleg. Við þetta eykst kostnaður verksins en jákvæðu áhrifin eru þau að orkutap minnkar og umhverfisrask er lágmarkað.
Hver eru tækifæri sæstrengs?
Landsvirkjun hefur safnað saman opinberum gögnum, skýrslum og fréttum um sæstrengsverkefnið. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á vefsíðu Landsvirkjunar.