Segment

Hjá Landsvirkjun starfar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur framsækni, ráðdeild og traust að leiðarljósi í allri sinni vinnu. Fyrirtækið kappkostar að vera í fararbroddi sem vinnustaður enda er mannauðurinn lykillinn að árangri þess og velgengni.

Section
Segment

Mannauðsmál í sífelldri þróun

Fastráðnir starfsmenn voru alls 260 árið 2014. Þess utan réði Landsvirkjun 155 ungmenni til sumarstarfa og 55 háskólanema.

Mannauðsstefna Landsvirkjunar byggir á gagnkvæmu trausti, tillitssemi og virðingu milli fyrirtækisins og starfsmanna. Við leitumst eftir að standa vörð um þekkingu, færni og líðan starfsfólks með öflugri mannauðsstjórnun. Á árinu 2014 var haldið áfram að efla mannauðsstjórnun í fyrirtækinu. Starfsmannastefna frá árinu 2009 var endurskoðuð og á henni gerðar töluverðar breytingar. Þá voru nær allir ferlar einfaldaðir og endurritaðir.

Segment

Vinnustaðagreining og stjórnendamat

Landsvirkjun framkvæmir árlega vinnustaðagreiningu á fyrsta ársfjórðungi. Vinnustaðagreining er könnun á viðhorfum starfsmanna til ýmissa þátta í innra skipulagi, stjórnun og menningu vinnustaðar. Tilgangurinn er að afla upplýsinga um starfsumhverfið svo hægt sé að vinna að umbótum á því og efla liðsheild. Samhliða vinnustaðagreiningunni lagði starfsfólk mat á störf stjórnenda í stjórnendamati.

Stefnumótunarfundur Landsvirkjunar fór fram haustið 2014. Á fundinum voru starfsmenn fyrirtækisins virkjaðir við vinnu að ýmsum stefnumálum sem snúa að starfsemi Landsvirkjunar. Í ár var meðal annars farið yfir liðsheild innan fyrirtækisins, innri og ytri samskipti og markaðsmál.

Section
Segment

Frammistöðusamtöl

Starfsánægja hjá Landsvirkjun mælist 4,29 af 5 mögulegum og hækkar lítillega milli ára.

Frammistöðusamtöl voru innleidd á fyrstu mánuðum ársins og fóru 95% starfsfólks í slíkt samtal hjá sínum stjórnanda. Í samtalinu er farið yfir þær hæfniskröfur sem fylgja hverju starfi og frammistaða starfsfólks á þeim hæfnisþáttum metin. Starfsfólk fær nú skýra umsögn með reglulegu millibili og endurgjöf á það sem vel er gert og það sem betur mætti fara. Með innleiðingu frammistöðusamtala fá stjórnendur betri yfirsýn yfir mannauð fyrirtækisins og tækifæri til að nýta betur þekkingu hvers og eins.

Segment

Innri samskipti

Í haust var nýr innri vefur opnaður með fleiri möguleikum til aukinna samskipta fyrir starfsfólk. Fréttasvæði vefsins var betrumbætt, myndum fjölgað og virknin aukin. Þróun á innri vef fyrirtækisins er liður í að auka samskipti og innra upplýsingaflæði. Á árinu var einnig tekið upp nýtt íslenskt mannauðs- og launakerfi með það að markmiði að gera launavinnslu skilvirkari. Kerfið heitir Kjarni og er hannað af Applicon.

Jafnlaunaúttekt

Gull í Jafnlaunaúttekt PwC

Landsvirkjun hefur á síðastliðnum árum unnið markvisst að því að tryggja jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Á síðastliðnu ári fékk fyrirtækið gullmerki PwC í fyrsta sinn og hefur nú staðfest öðru sinni að launamunur kynjanna er innan viðmiða PwC. Munur á grunnlaunum karla og kvenna mælist 0,1% sem er minnsti munur sem PwC hefur mælt í úttektum sínum hjá íslenskum fyrirtækjum. Munur á heildarlaunum er 2,8% og gætir þar áhrifa af því að stór hópur starfsmanna er í vaktavinnu við rekstur aflstöðva fyrirtækisins.

Section
Segment

Heilsa og öryggi

Hjá Landsvirkjun er heilsa og öryggi starfsmanna forgangsmál. Vinnulag miðar að því að fyrirbyggja öll slys og starfað er eftir svokallaðri „núll slysa stefnu“. Ekki tókst að uppfylla markmið fyrirtækisins um að ekkert fjarvistarslys eigi sér stað í starfseminni en eitt fjarvistarslys, þó ekki alvarlegt, var skráð á framkvæmdasviði á árinu. Athygli vekur að engin fjarvistarslys urðu í rekstri aflstöðvanna sem er frábær árangur. Öryggismál verða áfram forgangsverkefni hjá Landsvirkjun enda er slysalaus starfsemi ein af megináherslum fyrirtækisins.

Segment

Skipan öryggisstjóra

Á árinu var Kristján Kristinsson ráðinn öryggisstjóri Landsvirkjunar. Hann hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2003 sem verkefnisstjóri í öryggismálum og sem öryggisstjóri nýframkvæmda. Ráðning sérstaks öryggisstjóra er til marks um aukið vægi öryggismála innan Landsvirkjunar.

Segment

Framkvæmd öryggismála

Landsvirkjun er vottað samkvæmt OHSAS 18001 staðlinum og öryggisstjórnunarkerfið er rýnt á hverju ári, bæði af öryggisnefnd Landsvirkjunar og á aðalrýnifundi stjórnenda. Rafmagnsöryggisstjórnunarkerfið (RÖSK) er rýnt á hverju ári af löggiltum skoðunarmanni rafmagnsöryggismála. Áhættumat er framkvæmt fyrir öll störf og í öllum verkefnum sem unnin eru hjá Landsvirkjun. Í stærri framkvæmdaverkum er jafnframt gerð áhættuskrá (e. risk register) þar sem farið er ítarlega yfir allar áhættur sem kunna að hafa áhrif á verkið, þ.á m. öryggi starfsmanna. 

Ítarlegri upplýsingar um öryggismál fyrirtækisins eru að finna í Öryggisskýrslu Landsvirkjunar.