Section
Segment

Landsvirkjun hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Þess vegna er brýnt að fyrirtækið hafi skilning á sjónarmiðum og hagsmunum þeirra sem starfsemi fyrirtækisins hefur áhrif á. Markmið okkar er að auðvelda almenningi að kynna sér starfsemi fyrirtækisins, áherslur þess í markaðsstarfi og þá rannsóknarvinnu sem unnin er á auðlindum og umhverfi.

Section
Segment

Opnir fundir

Um 2.200 manns mættu á opna fundi Landsvirkjunar og fylgdust með beinni útsendingu á vef fyrirtækisins.

Landsvirkjun stendur árlega fyrir opnum fundum um starfsemi fyrirtækisins. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og kalla á opin samskipti við hagsmunaaðila um allt land. Landsvirkjun hélt sex opna fundi á árinu, tvo í Reykjavík og fjóra á landsbyggðinni.

Á annað hundrað manns mættu á landsbyggðarfundina sem fóru fram á núverandi starfssvæðum og fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum Landsvirkjunar. Rúmlega 1.000 manns mættu á opna árs- og haustfundi í Reykjavík og álíka margir fylgdust með fundunum í beinni útsendingu á vef fyrirtækisins.

Section
Segment

Árs- og haustfundir Landsvirkjunar 2014

Landsvirkjun heldur bæði ársfund og haustfund á hverju ári. Á fundunum er fjallað um ýmsa stefnumarkandi þætti í starfsemi fyrirtækisins auk þess sem farið er yfir árangur liðins árs og kynnt afmörkuð málefni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Með fundunum vill Landsvirkjun stuðla að upplýsandi samskiptum um starfsemi fyrirtækisins.

Section
Segment

Yfir 20 þúsund heimsóknir

Í sumar, líkt og fyrri ár, opnaði Landsvirkjun aflstöðvar sínar fyrir gesti sem vildu kynna sér starfsemi fyrirtækisins og raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Yfir 20 þúsund manns heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar og kynntu sér vindmylluverkefni fyrirtækisins við Hafið.

Tekið var á móti gestum í Búrfellsstöð, Fjótsdal og Kröflustöð auk þess að leiðsögn var veitt um Kárahnjúkastíflu. Langflestir lögðu leið sína í Kröflu eða hátt í tíu þúsund manns og yfir 90% þeirra voru erlendir ferðamenn. Tæplega 5.400 manns heimsóttu gestastofuna í Búrfelli, rúmlega 3.800 manns gestastofuna í Végarði í Fljótsdal og um 1.400 manns lögðu leið sína á Hafið.

Section
Segment

Gestkvæmt í rokinu

Síðustu tvö sumur hefur Landsvirkjun boðið gestum að skoða vindmyllurnar tvær á Hafinu, við Búrfellsstöð. Alls heimsóttu um 1.400 manns vindmyllurnar síðasta sumar og kynntu sér nýjan orkukost á Íslandi, rannsóknir tengdar verkefninu, virkni vindmyllanna og áætlanir á svæðinu.

Section
Segment
Umferð um vef Landsvirkjunar jókst um 30% á árinu og fylgjendum á Facebook fjölgaði um 1.000. Landsvirkjun deildi einnig um 80 færslum á Facebook, 215 tístum á Twitter og 35 Instagram-myndum.
Section
Segment

Kynntu þér Landsvirkjun á netinu

Lesendur ársskýrslu Landsvirkjunar 2013 voru alls 6.522, með yfir 41 þúsund síðufletingar.

Árs- og umhverfisskýrslur Landsvirkjunar voru í fyrsta sinn eingöngu gefnar út á rafrænu formi árið 2014. Markmiðið er að auka aðgengi almennings að árlegu uppgjöri fyrirtækisins og stuðla að virkri upplýsingagjöf um starfsemi þess. Alls heimsóttu 6.522 lesendur skýrsluna á síðasta ári og voru síðuflettingar yfir 41 þúsund talsins.

Ársskýrslan var enn fremur tilnefnd til fjölda innlendra og erlendra verðlauna. Má þar nefna tilnefningar til Digital Communication Awards og European Excellence Awards fyrir rafræna miðlun ásamt viðurkenningu frá Awwwards, alþjóðlegum samtökum hönnuða, vefhönnuða og forritara. Ársskýrslan var kjörin besti fyrirtækjavefur ársins 2014 á Íslensku vefverðlaununum, hlaut Lúður, íslensku auglýsingaverðlaunin, fyrir bestu vefauglýsingu og var tilnefnd sem vefur ársins hjá Nexpo.

Árs- og umhverfisskýrslur 2014 eru aðgengilegar öllum áhugasömum, sem geta einnig kynnt sér fyrirtækið á Landsvirkjun.is, á Facebook síðunni okkar, Twitter og Instagram