Segment

Fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Landsvirkjun hefur sett skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð með það að leiðarljósi að hámarka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi.

Section
Segment

Stefna um samfélagslega ábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.

Landsvirkjun setti sér stefnu um samfélagsábyrgð haustið 2011. Tugir starfsmanna komu að mótun og útfærslu hennar og síðan þá hefur hún verið innleidd í starfsemi fyrirtækisins. Við innleiðingu stefnunnar hefur sjónum meðal annars verið beint að vitundarvakningu meðal starfsmanna á málefnum samfélagsábyrgðar.

Fyrsta UN Global Compact framvinduskýrslan

Í nóvember 2013 undirritaði Landsvirkjun UN Global Compact – hnattræn viðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Undirritunin skuldbindur Landsvirkjun til að virða og innleiða tíu viðmið um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Nánari upplýsingar um viðmiðin eru á heimasíðu UN Global Compact.

Aðlögun stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð að viðmiðunum tíu átti sér stað á árinu 2014. Árleg skýrslugerð er hluti af þeim kröfum sem gerðar eru til aðila UN Global Compact viðmiðanna og í lok ársins skilaði Landsvirkjun sinni fyrstu framvinduskýrslu. Skýrslan er aðgengileg á vef Landsvirkjunar.


Með aðild að UN Global Compact vonast Landsvirkjun til að aðgerðir fyrirtækisins á sviði samfélagsábyrgðar verði enn sýnilegri og markvissari.

Segment

Áhersla á virðiskeðju

Á árinu var úthlutað alls 56 milljónum úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar til styrktar áhugaverðum rannsóknarverkefnum háskólanema á sviði orku- og umhverfismála.

Á árinu 2014 var lögð sérstök áhersla á vinnu við virðiskeðju Landsvirkjunar, þ.e. samskipti við birgja og samstarfsaðila með tilliti til stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð. Þar bar hæst mótun stefnu um heilindi í viðskiptum sem og siðareglna fyrir birgja og þjónustuaðila. Hvort tveggja byggir á siðareglum Landsvirkjunar og viðmiðum UN Global Compact. Ný stefna og siðareglur birgja verða innleiddar í viðeigandi verkferla á árinu 2015.

Section
Segment

Afrakstur 2014

Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð hefur sex áherslusvið. Árlega setjum við okkur markmið sem styðja við stefnuna á hverju sviði fyrir sig og árið 2014 settum við okkur alls fjórtán markmið. Markmiðunum var fylgt eftir með tíu verkefnum og fjórum mælikvörðum.

Náist markmið ekki innan árs er lagt mat á hvort það dugi að veita lengri tíma eða hvort gera þurfi breytingar á áætlunum og ferlum. Til að mynda náðist ekki markmið um aukið hlutfall kvenstjórnenda hjá Landsvirkjun á árinu 2014. Því var ákveðið að búa til sérstaka framkvæmdaáætlun og endurskoða jafnréttisstefnu Landsvirkjunar til að greina stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins. Sú vinna hefst árið 2015 en fyrirtækið hefur sett sér 13 markmið fyrir árið 2015.

Afrakstur vinnunnar árið 2014 má skoða hér að neðan.

Markmiði náð Markmið enn í vinnslu Markmið á byrjunarreit
Section
Segment

Stjórnhættir

Markmið 2014
Innleiða UN Global Compact í starfsemi Landsvirkjunar

Landsvirkjun gerðist aðili að viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð – UN Global Compact – í nóvember 2013.

Aðildin felur í sér skuldbindingu til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu –og gera í árlegri framvinduskýrslu grein fyrir lykilverkefnum fyrirtækisins sem snerta á þessum málaflokkum. UNGC.

Á árinu 2014 unnum við að því að gera umbætur í starfsemi okkar miðað við tíu viðmið Global Compact og í nóvember 2014 skiluðum við fyrstu framvinduskýrslu okkar til Global Compact um árangur á sviði samfélagsábyrgðar. Skýrslan: UN Global Compact - Communication on Progress

Innleiða eigendastefnu í starfsemina

Í ágúst 2012 kom út á vegum fjármálaráðuneytisins almenn eigendastefna ríkisins sem gildir um hlutafélög og sameignarfélög í ríkiseigu. Landsvirkjun hafði það að markmiði á árinu 2014 að gera þær umbætur í starfseminni sem nýja eigendastefnan kveður á um og ekki höfðu verið innleiddar í starfsemina nú þegar.

Eigendastefna ríkisins var rýnd og kröfur sem þar komu fram voru bornar saman við starfs- og stjórnarhætti Landsvirkjunar, en stefnan fjallar um stjórn, skipulag, stefnu, framtíðarsýn, rekstur, starfshætti og vinnulag fyrirtækja í eigu ríkisins. Þessi vinna leiddi í ljós að núverandi stjórnar- og starfshættir Landsvirkjunar ná að miklu leyti að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hlutafélaga og sameignarfélaga í ríkiseigu. Nauðsynlegum úrbótum var komið í farveg og verður innleiðingu þeirra haldið áfram á árinu 2015.

Markmið 2015
Endurskoða meginferla Landsvirkjunar

Virðiskeðjan

Markmið 2014
Semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum

Einn liður í því að stuðla að aukinni samfélagsábyrgð í rekstri er að hvetja til slíkra vinnubragða hjá samstarfsaðilum. Á árinu 2014 settum við okkur það markmið að semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum.

Stefnan hefur litið dagsins ljós og verður innleidd í verkferli sem tengjast viðskiptavinum Landsvirkjunar á árinu 2015.

Innleiða siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila

Á árinu 2014 var settur saman verkefnishópur sem hafði það markmið að búa til siðareglur birgja sem byggja á siðareglum starfsmanna og viðmiðum UN Global Compact um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Með þessari vinnu er Landsvirkjun að leggja fram skýrar leiðbeiningar til birgja og þjónustuaðila um til hvers er ætlast til þeirra m.t.t. heilbrigðra starfs- og stjórnarhátta. Reglurnar hafa litið dagsins ljós og verða innleiddar í verkferli tengd birgjum og þjónustuaðilum á árinu 2015.

Markmið 2015
Innleiðing vistvænna innkaupa

Umhverfismál

Markmið 2014
Betri nýting auðlinda – greining á fjölnýtingartækifærum jarðvarma og aukinni nýtingu vatnsafls

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækisins og gerir þá kröfu til okkar að auðlindirnar sem okkur er treyst fyrir séu nýttar á sem bestan hátt. Við erum stöðugt að meta og þróa þann tæknibúnað sem við búum yfir og kanna mögulegar aðgerðir til að nýta auðlindirnar betur og á hagkvæmari hátt.

Á árinu 2014 var ákveðið að gera sérstaka greiningu á því hvaða tækfæri liggja í nýtingu á jarðvarma til annarra nota en raforkuvinnslu. Í fjölnýtingu felst  að nýta vatn, gufu og gös frá virkjunum til ýmissa nota svo sem til iðnaðar, ræktunar og ferðamennsku. Einnig var skoðað hvort bæta mætti nýtingu þeirrar raforku sem hægt er að framleiða í raforkukerfinu í góðum vatnsárum.

Greiningin leiddi í ljós að spennandi tækifæri eru til staðar hvað varðar fjölnýtingu jarðvarma á starfssvæðum Landsvirkjunar á Norðausturlandi, þá sérstaklega í ræktun, áframvinnslu matvæla og eldsneytisvinnslu úr koltvísýringi og umframorku.

Landsvirkjun mun vinna áfram að fjölnýtingu og hefur í framhaldi af þessu verkefni verið skipaður sérstakur verkefnisstjóri sem hefur það hlutverk að leggja grunn að fjölnýtingu jarðvarma í starfsemi Landsvirkjunar á Norðausturlandi.

Heildstæð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Landsvirkjun hefur lengi mælt og áætlað losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og bindingu kolefnis frá fyrirtækinu og haldið kolefnisbókhald frá árinu 2007 sem skoða má í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar. Um þessar mundir losar Landsvirkjun 30-35 þúsund tonn CO2-ígildi umfram það sem er bundið samkvæmt kolefnisbókhaldi fyrirtækisins. Engar kvaðir eru um kolefnisjöfnuð fyrirtækja á Íslandi, en ákveðið var að setja fram heildstæða aðgerðaáætlun á árinu 2014 sem mikilvægan lið í að axla umhverfis- og samfélagsábyrgð.

Áætlunin sem nær til ársins 2020 er tvíþætt. Hún felur annars vegar í sér aðgerðir til að minnka losun og hins vegar aðgerðir til að binda það sem út af stendur. Vegna þess að aðgerðir til bindingar byrja að skila árangri um það bil tíu árum eftir að þær hefjast, er gert ráð fyrir því að þær skili jafnvægi í kolefnisbúskap fyrirtækisins um 2030. Náist markmið áætlunarinnar er gert ráð fyrir að Landsvirkjun nái að draga úr losun og auka bindingu sem bætir stöðu jöfnuðar um 50% árið 2020 frá því sem hún var 2012.

Í tengslum við gerð áætlunarinnar stóð Landsvirkjun fyrir opnum fundi um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum þann 4. mars 2015 en upptöku af fundinum má sjá hér.

Við setjum okkur samgöngustefnu og vinnum að orkuskiptum í samgöngum

Landsvirkjun hefur um árabil staðið fyrir fjölbreyttum aðgerðum til þess að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri fyrirtækisins.

Á árinu 2014 var sérstök áhersla lögð á orkuskipti í samgöngum og markaði fyrirtækið sér samgöngustefnu:

“Það er stefna Landsvirkjunar að draga úr áhrifum samgangna á umhverfi og andrúmsloft með því að

  • draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki í eigu fyrirtækisins;
  • bæta fyrir óhjákvæmilega losun með kolefnisbindingu í gróðri;
  • vera virkur þátttakandi í orkuskiptaáætlun fyrir Ísland.”

Snemma á árinu bættust við tveir rafbílar í bílaflota fyrirtækisins þar sem eldri jarðefnaeldsneytisbílum á aflstöðvum Landsvirkjunar í Fljótsdal og í Soginu var skipt út fyrir rafbíla. Reynslan af þessum bílum, sem eru af gerðinni Nissan Leaf, er góð og er það stefna Landsvirkjunar að rafbílar séu skoðaðir sem valkostur við endurnýjun bíla í starfsemi fyrirtækisins þar sem þeir geta hentað.

Í september 2014 tók Landsvirkjun, ásamt samstarfsaðilum, þátt í að halda ráðstefnu um orkuskipti í samgöngum sem skipulögð var af Grænu orkunni.

Markmið 2015
Athugun á vinnslu vistvæns eldsneytis úr umframorku og útblæstri
Uppgræðsla í kringum Þeistareyki
Drögum úr losun vegna samgangna starfsmanna og fyrirtækis – og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama

Samfélagið

Markmið 2014
Halda að minnsta kosti fimm opna fundi með hagsmunaaðilum árið 2014

Við höfum sett okkur þá stefnu að stuðla að opnum samskiptum við hagsmunaaðila og stundum þar af leiðandi margvíslega upplýsingamiðlun af starfsemi fyrirtækisins, meðal annars með fréttaflutningi og útgáfu árs- og umhverfisskýrslna.

Mikilvægur hluti þeirrar stefnu eru opnir fundir Landsvirkjunar. Von okkar er sú að þannig stuðlum við að betri þekkingu okkar á áhyggjum og væntingum hagsmunaaðila gagnvart fyrirtækinu og starfsemi þess og gefum um leið hagsmunaaðilum okkar færi á að kynnast starfseminni betur.

Á árinu 2014 setti Landsvirkjun sér það markmið að halda að minnsta kosti fimm opna fundi með hagsmunaaðilum. Við fórum fram úr því markmiði á árinu en haldnir voru alls sex opnir fundir á vegum Landsvirkjunar árið 2014. Tveir fundir voru haldnir í Reykjavík og fjórir á landsbyggðinni, bæði á starfsstöðvum og fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum.

Arður greiddur til eigenda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið. Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára.

Markmið 2015
Samtal á afmælisári Landsvirkjunar – enn fleiri opnir fundir
Mótun sjálfbærnivísa á Norðurlandi
Arður greiddur til eigenda

Mannauður

Markmið 2014
Auka hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá Landsvirkjun í 20% árið 2014

Árið 2011 undirritaði Landsvirkjun Jafnréttissáttmála UN Global Compact og UN Women. Markmið sáttmálans er að stuðla að jafnrétti og eflingu beggja kynja á vinnustaðnum, vinnumarkaðnum og í samfélaginu. Það er stefna Landvirkjunar að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig fer Landsvirkjun ekki aðeins að lögum heldur nýtir jafnframt mannauð fyrirtækisins á sem árangursríkastan hátt. Í þessu augnamiði hefur verið unnið mikilvægt starf við að draga úr launamun kynjanna og hefur hann farið úr 12,0% í 1,6% á undanförnum tíu árum. Fyrir þennan árangur hlaut Landsvirkjun Gullmerki PwC árið 2013. Einnig er leitast við að jafna kynjahlutföll innan hinna ýmsu starfa fyrirtækisins. 

Landsvirkjun setti sér markmið um að auka hlutfall kvenkyns stjórnenda á árinu 2014 úr 17% í 20%.

Ráðnir voru fimm nýjir stjórnendur á árinu 2014, þrír karlmenn og tvær konur. Þá lét einn stjórnandi af störfum á árinu án þess að ráðið væri í stöðuna. 

Í upphafi árs var hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá Landsvirkjun 17%. Í lok árs hefur talan hækkað upp í 19% og markmið ársins því ekki náðst þó hlutfallið hafi hækkað frá því sem var.

Í framhaldi af þessu verkefni, þar sem sett markmið náðist ekki, mun jafnréttisnefnd Landsvirkjunar fara yfir jafnréttismál hjá fyrirtækinu og verður sagt frá því verkefni í tengslum við samfélagsábyrgðarverkefni ársins 2015.

Árleg slysatíðni sé 0

Hjá Landsvirkjun skiptir öryggi starfsmanna okkur miklu máli. Vinnulag okkar miðar að því að fyrirbyggja slys og störfum við eftir núllslysastefnu. Við fylgjumst grannt með slysatíðni og birtum tölur yfir slys reglulega.

Markmið 2015
Endurskoðun jafnréttisstefnu Landsvirkjunar og gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar jafnréttismála
Árleg slysatíðni sé 0

Miðlun þekkingar

Markmið 2014
Auka aðgengi almennings að rannsóknum

Á ári hverju vinnur starfsfólk Landsvirkjunar, ráðgjafar og rannsóknaraðilar fjölda úttekta og skýrslna fyrir fyrirtækið. Á árinu 2013 var stigið mikilvægt skref í að gera þessar upplýsingar aðgengilegar öllum landsmönnum með því að tengja þær við rafrænu leitarvélina gegni.is.

Árið 2013 voru um 300 skýrslur gerðar aðgengilegar með þessu móti.
Árið 2014 voru 60 skýrslur gerðar aðgengilegar með þessum hætti.

Stuðla að nýsköpun í orkugeiranum með stuðningi við orkusprota

Eitt af lykilhlutverkum Landsvirkjunar hvað samfélagsábyrgð varðar er að miðla og deila þekkingu og stuðla með því móti að því að ný þekking eða sköpun verði til í samfélaginu. Á árinu 2014 studdi Landsvirkjun viðskiptasmiðju Startup Energy Reykjavík, sem hefur það markmið að auka verðmætasköpun í orkutengdum iðnaði og þjónustu með fjárfestingum í og stuðningi við orkusprota. Sjá nánar um verkefnið hér: www.startupenergyreykjavik.com 

Meðal þeirra árangursmælikvarða sem Landsvirkjun mun skoða að loknu verkefninu eru:

  • Fjöldi fyrirtækja í SER sem eru enn starfandi ári eftir að SER lýkur
  • Frekari fjármögnun SER sprotafyrirtækja einu ári eftir að viðskiptasmiðju lýkur

Tæpu ári eftir að SER lauk, eða í mars 2015, voru sex fyrirtæki af sjö enn starfandi.

Á sama tíma höfðu fyrirtækin safnað um 120 milljónum ISK í hlutafé.  Það má því segja að vel hafi tekist til með að stuðla að aukinni nýsköpun í orkugeiranum.

Stuðla áfram að þekkingarsköpun í gegnum Orkurannsóknasjóð

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar hefur frá árinu 2008 styrkt námsmenn og rannsóknarverkefni á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga til rannsókna á sviði orku- og umhverfismála. Það er markmið okkar að sjóðurinn stuðli áfram að sköpun nýrrar þekkingar á árinu 2014 og var 56 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum 2014.

Markmið 2015
Opna fræðandi orkusýningu í Ljósafossstöð
Stuðla áfram að nýsköpun í orkugeiranum með stuðningi við orkusprota
Auka aðgengi almennings að rannsóknum