Fyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Landsvirkjun hefur sett skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð með það að leiðarljósi að hámarka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi.
Stefna um samfélagslega ábyrgð
Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.
Landsvirkjun setti sér stefnu um samfélagsábyrgð haustið 2011. Tugir starfsmanna komu að mótun og útfærslu hennar og síðan þá hefur hún verið innleidd í starfsemi fyrirtækisins. Við innleiðingu stefnunnar hefur sjónum meðal annars verið beint að vitundarvakningu meðal starfsmanna á málefnum samfélagsábyrgðar.
Fyrsta UN Global Compact framvinduskýrslan
Í nóvember 2013 undirritaði Landsvirkjun UN Global Compact – hnattræn viðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Undirritunin skuldbindur Landsvirkjun til að virða og innleiða tíu viðmið um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Nánari upplýsingar um viðmiðin eru á heimasíðu UN Global Compact.
Aðlögun stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð að viðmiðunum tíu átti sér stað á árinu 2014. Árleg skýrslugerð er hluti af þeim kröfum sem gerðar eru til aðila UN Global Compact viðmiðanna og í lok ársins skilaði Landsvirkjun sinni fyrstu framvinduskýrslu. Skýrslan er aðgengileg á vef Landsvirkjunar.
Með aðild að UN Global Compact vonast Landsvirkjun til að aðgerðir fyrirtækisins á sviði samfélagsábyrgðar verði enn sýnilegri og markvissari.
Áhersla á virðiskeðju
Á árinu var úthlutað alls 56 milljónum úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar til styrktar áhugaverðum rannsóknarverkefnum háskólanema á sviði orku- og umhverfismála.
Á árinu 2014 var lögð sérstök áhersla á vinnu við virðiskeðju Landsvirkjunar, þ.e. samskipti við birgja og samstarfsaðila með tilliti til stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð. Þar bar hæst mótun stefnu um heilindi í viðskiptum sem og siðareglna fyrir birgja og þjónustuaðila. Hvort tveggja byggir á siðareglum Landsvirkjunar og viðmiðum UN Global Compact. Ný stefna og siðareglur birgja verða innleiddar í viðeigandi verkferla á árinu 2015.
Afrakstur 2014
Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð hefur sex áherslusvið. Árlega setjum við okkur markmið sem styðja við stefnuna á hverju sviði fyrir sig og árið 2014 settum við okkur alls fjórtán markmið. Markmiðunum var fylgt eftir með tíu verkefnum og fjórum mælikvörðum.
Náist markmið ekki innan árs er lagt mat á hvort það dugi að veita lengri tíma eða hvort gera þurfi breytingar á áætlunum og ferlum. Til að mynda náðist ekki markmið um aukið hlutfall kvenstjórnenda hjá Landsvirkjun á árinu 2014. Því var ákveðið að búa til sérstaka framkvæmdaáætlun og endurskoða jafnréttisstefnu Landsvirkjunar til að greina stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins. Sú vinna hefst árið 2015 en fyrirtækið hefur sett sér 13 markmið fyrir árið 2015.
Afrakstur vinnunnar árið 2014 má skoða hér að neðan.