Segment

Landsvirkjun byggir starfsemi sína á traustum grunni. Við vinnum eftir öflugri stefnu og vottuðu stjórnkerfi sem ætlað er að tryggja að fyrirtækið standi við áætlanir sínar og skuldbindingar. Gildi Landsvirkjunar eru framsækni, ráðdeild og traust.

Section
Segment

Hlutverk Landsvirkjunar

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Hlutverk þess er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Stefnan hvílir á fimm stoðum sem miða að því að uppfylla megi hlutverk Landsvirkjunar:

 • Skilvirk orkuvinnsla og framþróun

  Við byggjum starfsemi okkar á traustum innviðum sem einkennast af hagkvæmni, ráðdeild og virkri áhættustýringu í rekstri og fjárfestingum. Starfsemin endurspeglast í vottuðu stjórnkerfi fyrirtækisins sem ætlað er að tryggja að fyrirtækið standi við yfirlýstar heildaráætlanir sínar og skuldbindingar.

  ­

 • Fjölbreyttur hópur viðskiptavina

  Við sköpum verðmæti með því að laða að og uppfylla þarfir viðskiptavina sem stunda fjölbreytta starfsemi. Stefnt er að sem hagkvæmastri samsetningu orkueftirspurnar með tilliti til greiðslugetu og áhættudreifingar. Við treystum samstarf við viðskiptavini okkar með reglubundnum gagnkvæmum samskiptum.

  ­

 • Verðtenging við evrópska orkumarkaði

  Við lítum á evrópska orkumarkaðinn sem okkar samkeppnismarkað. Við keppum um að laða að fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og þjónustu og tökum þátt í að skoða tækifæri sem felast í beinni raforkutengingu við Evrópumarkað.

  ­

 • Þróa stöðugt hæfni og hæfileika starfsmanna

  Við tryggjum starfsmönnum okkar gott starfsumhverfi sem stuðlar að öryggi, góðri heilsu, miðlun þekkingar og þróun á hæfni og hæfileikum hvers og eins. Við ræðum árangur og frammistöðu okkar af sanngirni og hreinskilni og leitum leiða til að bæta stöðugt árangur okkar.

  ­

 • Skapa stuðning og samstöðu með opnum samskiptum við hagsmunaaðila

  Við teljum mikilvægt að sem breiðust sátt ríki um jafnvægið milli umhverfis-, samfélags- og arðsemisjónarmiða í rekstri fyrirtækisins. Fyrirtækið vill stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins, það er í fararbroddi hvað umhverfismál varðar og áhersla er lögð á samfélagsábyrgð þess. Fyrirtækið uppfyllir ytri kröfur, opinberar, lög og reglur, sem og aðrar kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.

Segment

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að vera framsækið alþjóðlegt raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Við viljum vera meðal þeirra bestu sem vinna og selja orku.

Segment

Starfsmenn vinna að stöðugum umbótum

Fjölbreyttur hópur starfsmanna af öllum sviðum fyrirtækisins tók þátt í að móta uppbyggingu og framsetningu á stjórnkerfi Landsvirkjunar.

Section
Segment

Stjórnkerfi Landsvirkjunar

Landsvirkjun er með vottað stjórnkerfi samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Stjórnkerfið rammar inn starfshættina, styrkir okkur í mikilvægum þáttum sem varða stýringu á áhættu og gerir okkur kleift að stuðla að gagnsæi í rekstri fyrirtækisins.

Landsvirkjun starfrækir vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001 fyrir alla starfsemina en  auk þess er upplýsingaöryggisstjórnunarkerfi upplýsingasviðs vottað samkvæmt ISO 27001. Þá er starfrækt rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu. 

Stöðugt unnið að umbótum

Við vinnum stöðugt að því að bæta rekstur fyrirtækisins og á ári hverju er unnið að fjölmörgum umbótaverkefnum. Af umbótaverkefnum á árinu 2014 ber helst að nefna endurbætur á stjórnkerfinu (gæðakerfinu), frekari innleiðingu á mælikvörðum í rekstri fyrirtækisins og bættri forgangsröðun verkefna.

Section
Segment

Markmið stjórnkerfis

 • ­ Að staðið sé við yfirlýstar heildaráætlanir og skuldbindingar fyrirtækisins gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og starfsmönnum ásamt því að stuðla að vernd umhverfisins.

 • ­ Að styðja við áreiðanleika starfseminnar með skilvirkni og öryggi að leiðarljósi og tryggja að innri sem ytri kröfum sé fylgt.

 • ­ Að stuðla að stöðugum umbótum með kerfisbundinni rýni og endurmati á frammistöðu fyrirtækisins.

Segment

Endurbætur stjórnkerfis

Forgangsverkefni árið 2014 var að endurskoða uppbyggingu og framsetningu á stjórnkerfi Landsvirkjunar. Við skoðunina var lögð áhersla á ábyrgð, samvinnu og einföldun og tók fjölbreyttur hópur starfsfólks þátt í vinnunni.

Unnin var skilgreining á meginferlum fyrirtækisins, þ.e. þeim nauðsynlegu ferlum sem Landsvirkjun þarf til þess að fyrirtækið geti uppfyllt hlutverk sitt og stefnu. Meginferlin endurspegla hvernig fyrirtækið vinnur sem ein heild og hvernig ábyrgð og samskipti eru á milli starfseininga. Einnig var hafin endurskilgreining á verklagi meginferla en sú vinna er hluti af því að uppfylla markmið samfélagslegrar ábyrgðar Landsvirkjunar um ábyrga stjórnarhætti.