Segment

Íslendingar vinna 99% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku. Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.

Section
Segment

Vatnsafl: 12.316,6 GWst

Heildarorkuvinnsla Landsvirkjunar árið 2014.

Árið 2014 hófst með lágri vatnsstöðu í miðlunum Landsvirkjunar. Jafn lág staða hefur ekki mælst í 15 ár, eða síðan árið 1998. Fyrstu tvo mánuði ársins hafði ekki mælst jafn lítil úrkoma á vatnasviðum Þjórsársvæðis og Blöndu frá upphafi mælinga. Á Austurlandi og Norðurlandi eystra var hins vegar úrkomusamt og mikið snjóaði til fjalla.

Í upphafi árs var ljóst að ef innrennsli til miðlana færi ekki batnandi yrði að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku og var viðskiptavinum tilkynnt það um miðjan janúar. Takmörkun afhendingar á skerðanlegri orku hófst 20. febrúar hjá stórnotendum og þann 1. mars hjá kaupendum orku til húshitunar. Í lok apríl var ákveðið að aflétta að hluta til takmörkun á afhendingu skerðanlegrar orku og þann 7. maí var öllum takmörkunum aflétt.

Samkvæmt samningum við viðskiptavini sem kaupa skerðanlega orku er Landsvirkjun heimilt að takmarka afhendingu á rafmagni, í slöku vatnsári. Þetta gefur okkur kost á því að stunda hagkvæma raforkuöflun.

Ítarlegri upplýsingar um innrennsli og tíðarfar fyrstu mánuði ársins.

Í byrjun mars lauk óvenjuþurru tíðarfari og mánuðurinn var ekki fjarri meðallagi bæði í tilliti úrkomu, hita og snjóa. Áfram bætti í snjó norðan- og austanlands. Skammvinna hláku gerði í lok mars og leysing varð þá í einhverjum mæli sunnan og vestanlands, einkum neðan 400-600 m y.s.

Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%.

Framan af vori var veðurfar nærri meðallagi, bæði varðandi hita og úrkomu. Nýlegur snjór sunnan- og vestantil á landinu bráðnaði hægt og bítandi allt frá því snemma í apríl. Grannt var fylgst með lækkunum í lónum og spár um lægstu stöður og hugsanlegan aflskort voru uppfærðar daglega. Í upphafi apríl fór Þórisvatn nálægt því að tæmast.

Ítarlegri upplýsingar um batnandi vatnsstöðu í miðlunarlónum.

Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 12.692 GWst árið 2014 sem er 0,2% minna en árið 2013.

Í enda maí snerist til sunnanáttar og milt loft átti greiðan aðgang að landinu upp frá því. Snjó tók að leysa Austanlands og jöklaleysing hófst um mánaðarmót júní og júlí. Að auki var rigningasamt sunnan- og vestanlands. Hálslón fór á yfirfall í lok ágúst og Blöndulón í lok september. Um miðjan október vantaði aðeins 24 sm upp á að Þórisvatn fylltist.

Ítarlegri upplýsingar um stöðu vatnsbúskapsins í lok árs 2014. 

Section
Segment

Jarðvarmi: 483,7 GWst

Raforkuvinnsla árið 2014 í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar, Kröflu og Bjarnarflagi, var um 484 GWst. Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Frá árinu 2012 hefur niðurdæling við Kröflu aukist í þrepum frá 80 kg/s upp í 125kg/s. Nú eru um 13 kg/s sem ekki er dælt niður en stefnt er að því að dæla öllu skiljuvatni Kröflustöðvar aftur niður í jarðhitageyminn.

Section
Segment

Vindafl: 6,7 GWst

Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur uppsett afl 0,9 MW. Rekstur þeirra hefur gengið mjög vel á árinu og lítið hefur verið um truflanir.

Section
Segment

Rekstur aflstöðva

Rekstur stöðva hefur gengið vel á árinu. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 87 á árinu 2014 samanborið við 76 á árinu 2013. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að meðtöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,7% tímans á árinu, eins og árið 2013.

Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu. Landsvirkjun starfrækir samþætt, vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.

Segment

Viðbragðsáætlanir vegna náttúruvá

Raforkukerfi landsins er lífæð þjóðfélagsins. Þess vegna er mikilvægt að viðbrögð við hvers konar áföllum sem gætu orðið séu vel skilgreind. Markmiðið er að tryggja öruggan rekstur raforkukerfisins sem er grundvöllur fyrir starfandi samfélagi og varðar þjóðarhag.

Neyðarstjórn Landsvirkjunar var virkjuð 16. ágúst sl. þegar Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir óvissustigi vegna umbrota í Bárðarbungu. Síðan þá hafa verið haldnir reglulegir fundir til að meta og upplýsa um stöðu eldsumbrota norðan Vatnajökuls.

Tilgangur flóðvara er að lágmarka skemmdir á stíflumannvirkjum í stærri flóðum og draga úr afleiðingum þess ef rof kæmi á stíflu.

Viðbragðsáætlanir Landsvirkjunar vegna náttúruvá beinast einkum að jarðskjálftum, öskufalli og misstórum flóðum. Í ljósi atburðanna við Holuhraun og í Bárðarbungu voru viðbragðsáætlanir uppfærðar og undirbúnar aðgerðir fyrir mögulegar sviðsmyndir sem gætu orðið vegna umbrotanna. Þá var ákveðið að endurbæta flóðvar við Hágöngur til að varna því að hjástífla Hágöngulóns bresti í stórflóði. Jafnframt voru loftræstikerfi í aflstöðvum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu yfirfarin ef til öskufalls kæmi og farið í aðgerðir til að verja stöðvarnar fyrir ágangi vatns yrðu þær umflotnar í kjölfar flóða.

Section

Stór eldgos, jarðskjálftar og flóð geta haft veruleg áhrif á starfsemi Landsvirkjunar. Vegna umbrota í Holuhrauni og Bárðarbungu voru gerðar viðbragðsáætlanir fyrir mögulegar afleiðingar af völdum umbrotanna á starfssvæðum fyrirtækisins.

Section
Segment

Fjárfestingar í orkumannvirkjum í rekstri

Unnið var að 102 fjárfestinga- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2014. Keyptur var nýr vélaspennir í Búrfellsstöð sem tekinn var í rekstur um miðjan júlí. Í Blöndustöð var stjórnbúnaður stöðvarinnar uppfærður en eldri búnaður var upprunalegur. Uppfærslan var unnin á meðan stöðin var í fullum rekstri og var útitími véla lítill. Uppfærslan gekk vel og lauk um miðjan nóvember. Í Kröflustöð var skipt um hluta af gastæmikerfi vélar tvö, en við það jókst afl frá rafala um 1,5 MW eða sem nemur um 12,5 GWst í árlegri vinnslu.

Segment

Eignastýring orkumannvirkja

Markmið með eignastýringu er í hnotskurn að hámarka (besta) rekstur eigna þannig að þær gegni skilgreindu hlutverki og uppfylli settar kröfur. Jafnvel þó að viðhaldi sé vel sinnt þarf að framkvæma endurnýjun eða endurbætur í orkumannvirkjum fyrir lok áætlaðs líftíma. Á árinu lauk mikilvægum áfanga við innleiðingu verklags eignastýringar í samræmi við ISO 55001 staðalinn og hugbúnaðar sem styður það verklag. Í næsta áfanga verður unnið að því að bæta verklag við ástandsgreiningu mannvirkja og búnaðar til notkunar við greiningu á fjárfestingarþörf til lengri tíma litið.

Segment

Smávirkjun við Hágöngumiðlun

Á árinu var sett upp 20 kW vatnsaflsstöð við Hágöngumiðlun til þess að sinna daglegri orkuþörf við miðlunina sem og fjarskiptastöðina á Skrokköldu sem rekin er af Neyðarlínunni.

Um svipað leyti og miðlunin var byggð var sett upp fjarskiptastöð á Skrokköldu og eru þar bæði síma og neyðarsendar sem þjóna hluta af hálendinu. Fjarskiptastöðin sem og mælibúnaður við Hágöngumiðlun hefur hingað til verið knúin með díselrafstöðvum. Dýrt er að stunda stöðugan rekstur á díselrafstöðvum uppi á miðhálendinu og erfitt að komast á staðinn í vondum veðrum. Díslelrafstöðvarnar munu framvegis aðeins keyrðar ef vatnsaflsstöðin bilar.

Nýja vatnsaflsstöðin styður við stefnu Landsvirkjunar í umhverfismálum með því að draga úr mengun og líkum á mengunarslysi við olíuflutninga um viðkvæmt landsvæði.

Segment

Nýja orkustjórnkerfið Nimbus

Landsvirkjun festi kaup á nýju vinnsluáætlanakerfi frá norska fyrirtækinu Powel í lok árs 2013. Kerfið heitir Nimbus og fór innleiðing þess fram á árinu. Helsta hlutverk nýs kerfis er gerð áætlana fyrir vinnslustýringu byggða á áætlunum viðskiptavina, lónstöðu, innrennslisspám og viðhaldi. Enn fremur heldur Nimbus utan um vatns- og vinnslugögn, auk þess að auðvelda kerfisgreiningar og framtíðarspár fyrir vatnsbúskapinn. Með nýju kerfi verður hægt að auka nýtingu vatns í aflstöðvum og gera vinnslustýringu skilvirkari. Í framtíðinni verður mögulegt að hámarka nýtingu vatns gagnvart verði á erlendum raforkumörkuðum komi til tengingar við þá.