Segment

Landsvirkjun er leiðandi á sviði rannsókna og þróunar á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun og starfar í samvinnu við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Landsvirkjun horfir sífellt til framtíðar og leitar nýrra og óhefðbundinna leiða til að ná árangri. Við höfum skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð og leitumst eftir að auka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins á samfélag og umhverfi og draga úr þeim neikvæðu.

Section
Segment

Rannsóknir á vatnalífríki Þjórsár

Umhverfisrannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Landsvirkjunar. Við fyrstu athuganir á virkjunarhugmyndum skipta ítarlegar umhverfisupplýsingar miklu máli við að móta tilhögun einstakra virkjana og lágmarka umhverfisáhrif eins og kostur er. Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi virkjana í neðri hluta Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar. Um þrjá virkjanakosti er að ræða, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Allir virkjanakostir eru í biðflokki rammaáætlunar.    

Lífríki Þjórsár hefur verið vaktað með rannsóknum á fiskistofnum í ánni allt frá 1973. Einnig hefur fyrirtækið staðið fyrir seiðasleppingum og byggingu fiskistiga við fossinn Búða sem hefur tvöfaldað laxgengt svæði árinnar. 

Áður en farið verður í mögulegar virkjanaframkvæmdir í neðri Þjórsá þarf að afla vitneskju um gengd og stofnstærð laxa í ánni. Upplýsingar þar um eru nauðsynlegar til að meta hvaða mótvægisaðgerða þurfi að grípa til svo hægt sé að lágmarka neikvæð áhrif af virkjun á svæðinu. Við hönnun mannvirkja er meðal annars gert ráð fyrir seiðafleytu, fiskistiga og fiskvænum túrbínum. Aðrar aðgerðir snúa að því að lágmarka röskun á vatnalífi á svæðinu.

 • - -5.png
  Seiðafleyta - Skýringarmynd Seiðafleyta er staðsett fyrir ofan inntak virkjunar og hindrar að seiði fari um vélar aflstöðvar og hljóti skaða af. Efsta metra aðstreymandi vatns er beint um seiðafleytuna, fram hjá inntaki virkjunarinnar um sérstaka rennu og niður í náttúrulegan farveg árinnar.
 • - -7.png
  Seiðafleyta - Skýringarmynd Seiðafleyta er staðsett fyrir ofan inntak virkjunar og hindrar að seiði fari um vélar aflstöðvar og hljóti skaða af. Efsta metra aðstreymandi vatns er beint um seiðafleytuna, fram hjá inntaki virkjunarinnar um sérstaka rennu og niður í náttúrulegan farveg árinnar.
Segment

Talning laxfiska

Í laxveiðiám sem nýttar eru til stangaveiði hefur Veiðimálastofnun sýnt fram á tengsl milli veiðitalna og stofnstærðar. Þannig geta veiðitölur einar og sér gefið góða vísbendingu um fjölda laxa sem ganga í viðkomandi á. Þjórsá er hins vegar að langmestu leyti nýtt til netaveiða en engin gögn eru til sem sýna tengsl netaveiði og stofnstærðar og er fjöldi laxa í Þjórsá óþekktur. 

Í Kálfá hafa 670 gönguseiði verið örmerkt í þeim tilgangi að meta heildarfjölda laxa í Þjórsá.

Best er að meta stofnstærð fiska með fiskiteljara sem komið er fyrir skammt frá ósi þar sem fiskar á leið upp ána fara um. Hins vegar hefur reynst erfitt að koma fyrir hefðbundnum fiskiteljara í Þjórsá þar sem áin er bæði vatnsmikil og breið. Fiskiteljari er í fiskistiganum við fossinn Búða en hann nýtist takmarkað til að meta stofnstærð laxa í ánni, m.a. vegna fjarlægðar hans frá ósi.

Vegna sérstöðu Þjórsár er verið að reyna að meta stærð laxastofns árinnar samkvæmt hugmyndum Veiðimálastofnunar með örmerkingu laxaseiða í einni af þverám Þjórsár, Kálfá. Það er gert með því að örmerkja seiði sem ganga til sjávar og að ári liðnu er borið saman endurheimt hlutfall merktra og ómerktra fiska úr afla og úr fiskiteljara sem settur var upp í Kálfá.

Merkingar hófust í Kálfá árið 2012 en þá voru 670 gönguseiði örmerkt með því að skjóta litlu stálmerki í trjónu seiðisins og þau einnig veiðiuggaklippt. Athuganir benda til að merkin hafi ekki áhrif á seiðin og klipping veiðiugga virðist ekki hafa áhrif á lífslíkur þeirra.

 • umhverfisskyrslamyndir1400x5007.jpg
  Fiskarnir sem fara í gegnum fiskateljarann eru greindir með myndatöku í merkta og ómerkta fiska.
 • umhverfisskyrslamyndir1400x5006.jpg
  Fiskiteljari var settur upp í Kálfá, einni af þverám Þjórsár. Merkingar á seiðum hófust þar árið 2012.
Segment

Fyrirstaðan við fiskateljarann í Kálfá nær bakka á milli og því fara engir fiskar þar fram hjá án þess að fara í gegnum teljarann. Í teljaranum eru fiskarnir greindir með myndatöku í merkta og ómerkta fiska.  Með því að þekkja heildarfjölda fiska sem gengur í Kálfá og fjölda merktra fiska af þeim, ásamt upplýsingum um heildarveiði í Þjórsá er hægt með hlutfallsreikningi að leggja mat á stærð laxastofnsins í ánni. 

Rannsóknir á gengd og stofnstærð laxa í Þjórsá standa enn yfir og fara fram undir stjórn Veiðimálastofnunar. Vonir standa til að innan fárra ára gefi þær nokkuð góða mynd af stærð laxastofnsins og eins verði tengsl netaveiða og stofnstærðar það vel þekkt að hægt verði að fylgjast með breytingum á stofnstærðum út frá netaveiðitölum.

Segment

Áhrif á búsvæði neðan stíflu

Landsvirkjun hefur stundað umfangsmiklar rannsóknir á mögulegum rennslisbreytingum vegna fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Er það gert þar sem rennslisbreytingar í árfarvegum vegna reksturs vatnsaflsstöðva geta haft áhrif á bæði mannlíf og dýralíf.    

Frá því að virkjanir voru reistar í efri hluta Þjórsár hafa orðið miklar breytingar á rennsli í neðri hluta árinnar. Dregið hefur úr aurburði og betri skilyrði skapast fyrir laxastofninn sem hafa stuðlað að vexti hans og aukið veiði í ánni. 

Komi til virkjanaframkvæmda í neðanverðri Þjórsá mun draga verulega úr rennsli í náttúrlegum farvegi árinnar sem liggur frá stíflu að frárennslisskurði. Ef ekkert er að gert gæti vatnsstreymið á þessum svæðum dregist saman í þrengri farveg og lífríki skerst. Hægt er að tryggja lágmarksrennsli um þessi svæði með því að setja fyrirstöður í árfarveginn sem halda vatnsfletinum nær óbreyttum. Þannig er hægt að viðhalda sem mestu af núverandi vatnalífi. 

Lífríki í straumvatni er fjölþætt og nær allt frá frumframleiðslu baktería og plantna til botndýra og fiska og einnig fugla sem lifa við vötnin. Þar sem fæðukeðjan er viðkvæm er nauðsynlegt að huga að öllu lífríki við hönnun virkjana. Landsvirkjun skoðar nú möguleikann á því að stýra rennsli um farvegi, og önnur mikilvæg búsvæða laxfiska, neðan stíflna þeirra virkjunarkosta sem fyrirtækið er með til skoðunar. Markmiðið er að reyna að halda sem mestu af núverandi lífrænni framleiðni á svæðunum og stuðla að öflugu vatnalífríki í breyttu umhverfi. 

Section
Segment

Tækifæri fjölnýtingar

Árið 2014 var Sigurður M. Markússon, jarðefnafræðingur, skipaður verkefnastjóri yfir uppbyggingu fjölnýtingar. Með fjölnýtingu vill Landsvirkjun nýta jarðhitaauðlindina betur með því að vinna verðmæti úr öllum orku- og efnastraumum sem til falla.

Landvirkjun hefur lagt sérstaka áherslu á að kanna möguleika fjölnýtingar á jarðhitasvæðum á Norðausturlandi en fyrirtækið starfrækir þar tvær jarðvarmastöðvar. Iðnaðaruppbygging samfara jarðhitavinnslu á svæðinu er unnin í samvinnu við nærsamfélagið.

Undandarin ár hefur verið mikil vitundarvakning um möguleika fjölnýtingar og tækifærum á þessu sviði fer fjölgandi ár frá ári.

Segment
Segment

Áætlað er að aðgengileg varmaorka til fjölnýtingar frá Kröflustöð sé allt að 200 MWth.

Í flestum tilfellum felst bein nýting í lagningu hitaveita til að hita hús og aðra innviði. Þó takmörkuð þörf sé fyrir hitaveitu í nærliggjandi byggðir á starfssvæðum Landsvirkjunar eru möguleikar fyrir beina nýtingu orkustrauma frá jarðvarma gríðarlega miklir.

Víða erlendis er framleiðsla knúin með bruna á jarðgasi með tilheyrandi losun á gróðurhúsalofttegundum. Fjölnýting býður upp á umhverfisvænan iðnað sem nýtir endurnýjanlega orkugjafa án verulegra umhverfisáhrifa.

Heitt vatn, gufa og gas eru nýtanleg í ýmsan iðnað sem krefst orku. Þar má helst nefna ræktun matvæla og þörunga, áframvinnslu ýmissa hráefna og eldsneytisvinnslu úr koltvísýringsútblæstri virkjana. Fjölnýting getur einnig stutt við ferðamennsku á jarðhitasvæðunum og má þar nefna jarðböðin við Mývatn sem nýta affallsvatn frá Bjarnarflagsstöð.

Segment

Betri nýting auðlindanna

Nýting orku og efnastrauma frá jarðvarma skapar mikil samlegðaráhrif þar sem hægt er að bæta nýtingu orkuauðlinda, draga úr umhverfisáhrifum og ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri.

Section
Segment

Loftgæðamælingar í eldsumbrotum

Landsvirkjun hefur í áratugi unnið að umfangsmiklum rannsóknum á umhverfi og náttúru í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Markmiðið er að dýpka skilning okkar á náttúru landsins og fylgjast með áhrifum manna á umhverfið.

Samstarf Landsvirkjunar og rannsóknarstofnana vegna eldsumbrota við Holuhraun er gott dæmi um hvernig rannsóknarsamfélagið getur samnýtt þekkingu, aðstöðu og búnað.

Loftgæðamælingar í tengslum við jarðhitanýtingu eru hluti af þeim rannsóknum sem Landsvirkjun stundar. Með mælingunum er fylgst með styrk brennisteinsvetnis (H2S) í andrúmslofti en helstu uppsprettur brennisteinsvetnis eru blásandi rannsóknarborholur, náttúrulegt útstreymi frá jarðhitasvæðum og eldgos.

Landsvirkjun rekur fimm loftgæðamæla á Norðausturlandi. Tveir mælar eru staðsettir í Reykjahlíð við Mývatn, einn í Kelduhverfi og annar á Þeistareykjum. Fimmti mælirinn hafði verið staðsettur í Reykjahlíð en var lánaður til Akureyrar svo hægt væri að vakta þar mengun frá eldgosinu í Holuhrauninu.

Árið 2014 fór styrkur brennnisteinsvetnis á rannsóknarsvæðum Landsvirkjunar ekki upp yfir heilsuverndarmörkin 5 µg/m3.

Samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2014, að teknu tilliti til mælinákvæmni upp á ±3 µg/m3 , fór styrkur brennnisteinsvetnis 2014 ekki upp yfir heilsuverndarmörk eða 5 µg/m3 (±3 µg/m3). Daglegt hámark 24 klukkustunda hlaupandi meðaltals af styrk brennisteinsvetnis fór aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk samkvæmt reglugerð nr. 514/2010, 50 µg/m3.

Landsvirkjun lánaði loftgæðamæla til Umhverfisstofnunar vegna eldgossins í Holuhrauni. Einnig lánuðum við mæli til Jarðvísindastofnunar, nánar tiltekið alstöðvar, sem nýtist við mælingar á hraunþykkt Holuhrauns og mun jafnframt veita aðstoð við mælingu þess. Markmiðið er að meta rúmmál gosefna sem hafa komið upp meðan á eldgosinu stendur.

Segment

Eldsumbrot í Holuhrauni

Eldgos hófst í Holuhrauni í ágúst 2014. Um miðjan október 2014 óskaði Umhverfisstofnun eftir því að Landsvirkjun myndi stilla loftgæðamæla sína á þá leið að mælt yrði bæði brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinsdíoxíð (SO2) í andrúmslofti. Þannig gæti Umhverfisstofnun fylgst með áhrifum mengunar frá gosstöðvum í byggð á Norðurlandi. Landsvirkjun varð við beiðninni og lánaði enn fremur Umhverfisstofnun mæli sem staðsettur hafði verið í Reykjahlíð svo hægt væri að fylgjast með áhrifum eldgossins á Akureyri og nágrenni.

Segment
Segment

Eitt af algengustu gosefnum frá eldgosinu í Holuhrauni er brennisteinsdíoxíð (SO2). Loftgæðamælar Landsvirkjunar geta bæði mælt brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinsdíoxíð (SO2). Hins vegar verður gildi brennisteinsvetnis ekki jafn nákvæmt þegar báðar lofttegundir eru mældar samtímis. Þetta á sérstaklega við ef breytileikinn í magni brennisteinsdíoxíðs er mikill. Verði mikil lækkun á brennisteinsdíoxíði á skömmum tíma getur það orsakað að gildi brennisteinsvetnis reiknast hærra en raun er. Aftur á móti ef mikil hækkun verður á brennisteinsdíoxíði á skömmum tíma getur það orsakað að gildi brennisteinsvetnis reiknast lægra en raun er.

Þetta gerir það að verkum að nákvæmni mælinga á styrk brennisteinsvetnis vegna jarðhitanýtingar verður ekki eins mikil. Landvirkjun mun taka tillit til þessa við framtíðarmat á niðurstöðum loftgæðamælinga.