Segment

Jarðhitasvæðið við Þeistareyki býður upp á mikla möguleika til jarðvarmavinnslu en unnið hefur verið að undirbúningi fyrir uppbyggingu jarðvarmavirkjunar á svæðinu til margra ára með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Fyrsta skrefið er 45 MW áfangi með möguleika á stækkun í 90 MW í öðrum áfanga. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 200 MW orkuvinnslu í fullbyggðri virkjun.

Section
Segment

Sjálfbær nýting jarðvarma

Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjun á Þeistareykjum verði fyrsta skrefið í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á Norðausturlandi. Á árinu fóru fram umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykjum. Framkvæmdir tóku mið af sérstöðu svæðisins og var mikið lagt upp úr því að vinna í sátt við umhverfi og samfélag.

Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem er nú í eigu Þingeyjarsveitar. Landsvæðið liggur suðaustur af Húsavík; frá Höfuðreiðarmúla í norðri og suður undir Kvíhólafjöll og frá Lambafjöllum í vestri að Ketilfjalli og Bæjarfjalli í austri. Svæðið er talið bjóða upp á mikla möguleika til jarðvarmanýtingar.

Section
Segment

Undirbúningur virkjunar

Útboðshönnun Þeistareykjavirkjunar hófst haustið 2011 þegar samið var við verkfræðistofurnar Mannvit og Verkís um verkefnið. Þessir íslensku aðilar höfðu nýlega lokið við hönnun Hellisheiðarvirkjunar og því ákjósanlegir samstarfsaðilar. Hönnunarverkefnið er eitt hið stærsta sem unnið hefur verið á síðustu árum og dæmi um hagnýtingu íslensks hugvits í jarðvarmageiranum. Meginmarkmið útboðshönnunar var að hanna arðbæra, áreiðanlega virkjun sem tæki mið af umhverfi sínu og náttúru. Sérstök áhersla var lögð á umhverfismál. Má þar nefna sjálfbæra nýtingu jarðvarma og grunnvatns, uppgræðslu raskaðra svæða og endurheimt beitarlands.

Útboðshönnun lauk á fyrri hluta ársins 2014 og í mars voru boðin út kaup á tveimur vélasamstæðum, tilheyrandi eimsvölum og kæliturnum og tengdum búnaði. Fjögur hagstæð tilboð bárust í verkið.

Section
Segment

Fyrirhuguð mannvirki 

Yfirlitsmynd

Fyrirhugað stöðvarhús er hægra megin á myndinni, með tveimur vélasölum. Fyrir miðju eru kæliturnar og rakaskiljur og þangað liggja aðveitulagnir frá gufuskiljum efst á myndinni. Lengst til vinstri er gufulokahús og gufuhljóðdeyfir. Gangi áætlanir eftir hefjast byggingaframkvæmdir í maí 2015.

Segment

Gert er ráð fyrir að um 145 manns muni starfa við uppbyggingu Þeistareykjavirkjunar næstu tvö sumur og um 80 manns sumarið 2017.

Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir byggingu stöðvarhúss sem samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Byggð verður skiljustöð, niðurrennslismannvirki og dælustöð fyrir kaldavatnsveitu ásamt því að leggja gufupípur að þremur núverandi borsvæðum. Áætlað er að það taki tæp þrjú ár að byggja stöðvarhúsið, setja upp eina aflvél og leggja gufuveituna. Auk þess eru helstu verkþættir smíði og uppsetning rafbúnaðar og stjórnkerfis virkjunar. Gangi áætlanir eftir hefjast byggingaframkvæmdir í maí 2015.

Á Þeistareykjum hafa verið boraðar níu vinnsluholur. Holurnar skila gufu sem jafngildir um 50 MW rafafli, eða einni aflvél. Samhliða ákvörðun um uppsetningu næstu aflvélar verða boraðar átta til níu vinnsluholur til viðbótar þeim sem fyrir eru.

Segment
Section
Segment

Yfirlit framkvæmda 2014

Undirbúningsframkvæmdir undanfarinna ára hafa miðað að því að hægt sé að hefja byggingu virkjunar með skömmum fyrirvara. Sumarið 2014 var því farið í svokallaðar hröðunarframkvæmdir, sem fólu í sér lagningu vatnsveitu væntanlegrar virkjunar og gröft á stöðvarhússgrunni. Þá var farið í umfangsmiklar rannsóknarboranir. Boraðar voru vatnstöku-, niðurrennslis- og svelgholur fyrir væntanlega virkjun ásamt rannsóknarholum til að efla enn frekar rannsóknir á grunnvatni.

Sumarið 2014 var unnið að lokafrágangi virkjunarvegar fyrstu 15 kílómetrana upp frá Húsavík að Þeistareykjum. Gengið var frá vegköntum og efnisnámum sem nýttar voru til verksins.

Endanlegur frágangur á vegi með lagningu bundins slitlags alla leið að stöðvarhússlóð fer fram á komandi sumri.

Unnið var að raf- og fjarskiptavæðingu á svæðinu í samvinnu við Landsnet og lokið var við uppsetningu vinnubúða Landsvirkjunar og hluta af vinnubúðum fyrir væntanlega verktaka.

Section
Segment

Aflprófanir

Október 2014

Með aflprófunum á vinnsluholum á Þeistareykjum eru holurnar látnar blása á fullum afköstum til að líkja eftir rekstri 45 MW virkjunar. Markmiðið er að kanna hvort og þá hvernig rekstur jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum myndi hafa áhrif á jarðhitageyminn. Aflprófanir hafa staðið yfir frá því í október 2014 og eru liður í að sannreyna sjálfbærni jarðhitasvæðisins.

Section
Segment

Í sátt við umhverfi og samfélag

Allt frá upphafi að undirbúningi Þeistareykjavirkjunar hefur verið tekið mið af sérstöðu svæðisins. Þeistareykir voru nær ósnortnir ef frá voru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja til að tryggja að þeim svæðum verði ekki raskað.

Við hönnun virkjunar hefur verið hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins. Framkvæmdir hafa því verið skipulagðar á þann hátt að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu. Má þar nefna sáningu í vegfláa Þeistareykjavegar og nýtingu gróðurþekju af framkvæmdasvæðum til uppgræðslu með fram vegum og til klæðningar á jarðvegsmön.

  • imgtheistareykir3.jpg
    Á árinu var 37.118 plöntum af birki og lerki plantað í lúpínubreiður á Reykjaheiði í Norðurþingi og í nágrenni virkjanavegar. Stefnt er að því að planta 30 til 40 þúsund plöntum til viðbótar á næsta ári.
  • imgtheistareykir.jpg
    Til að draga úr ásýnd borholna og lagna eru mótaðar jarðvegsmanir á svæðunum í kring. Hér er horft í átt að borsvæði A frá Þeistareykjaskála að Bæjarfjalli. Mönin verður síðar klædd með gróðri.
  • imgtheistareykir4.jpg
    Hér má sjá nýgerðan veg sem liggur frá Húsavík og að Þeistareykjum. Mikið var lagt upp úr frágangi vegfláa til að vegurinn félli vel að ásýnd umhverfisins.
  • imgtheistareykir2.jpg
    Við vinnu á stöðvarhúsreit Þeistareykjavirkjunar voru gróðursverðir grafnir upp og nýttir í frágang vegfláa á virkjanasvæði.
Segment

Gerð hefur verið áætlun um uppgræðslu lands sem mótvægi við það land sem fer undir mannvirki virkjunar í samstarfi við Þingeyjarsveit, Norðurþing og aðra landeigendur. Samið hefur verið við Landgræðslu ríkisins um umsjón með uppgræðsluverkefnunum. Á árinu var sáð í alls um 120 ha lands, þar af um 40 ha í landi Þingeyjarsveitar til að endurheimta beitarland. Einnig var yfir 30 þúsund plöntum plantað í lúpínubreiður norðan Höskuldsvatns. 

Landsvirkjun hefur stundað reglubundna vöktun á vinnslusvæðinu á Þeistareykjum. Markmiðið er að þekkja vel grunnástand umhverfisþátta áður en rekstur virkjunar hefst. Þannig verður hægt að meta hvort og þá hvernig rekstur jarðvarmavirkjunar hefur áhrif á umhverfi sitt.

Ítarlegar upplýsingar um umhverfisvöktun, náttúru og ásýnd er að finna í Umhverfisskýrslu Landsvirkjunar .

Þeistareykir hafa verið á torsóttu svæði á hálendi Íslands en með tilkomu virkjunar og nýju vegakerfi mun aðgengi að svæðinu batna. Landsvirkjun vann árið 2012 að ferðakönnun á svæðinu sem mældi umferð ferðamanna fyrir framkvæmdir. Sú könnun verður endurtekin meðan á framkvæmdum stendur og eftir að virkjun verður komin í rekstur. Virkjanavegur frá Húsavík bætir aðgengi að svæðinu og er markmiðið með könnuninni að fylgjast með því hvort breytingar verða á fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim samhliða uppbygginu Þeistareykjavirkjunar.

Á árinu hófst samstarf milli Landsvirkjunar, Ferðamálasamtaka Þingeyjarsveitar, Húsavíkurstofu og Mývatnsstofu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri í ferðaþjónustu vegna uppbyggingar Þeistareykjavirkjunar.

Markmið Landsvirkjunar er að nýta orkuauðlindir í sátt við umhverfi og samfélag og er þar af leiðandi mikil áhersla lögð á að eiga í opnum samskiptum við íbúa á þeim svæðum þar sem fyrirtækið starfar. Árið 2014 voru haldnir opnir íbúafundir á Norðausturlandi til að upplýsa íbúa um stöðu verkefnisins á Þeistareykjasvæðinu. Einnig voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum til að stuðla að virkri upplýsingagjöf og afla upplýsinga um viðhorf og væntingar nærsamfélagsins.